Júníkjóllinn

Júníkjóllinn er skemmtilegur söngkonukjóll með bleiku undirpilsi. Hef komið fram í honum við hin ýmsu tilefni; svo sem þegar ég var kynnir og meðal söngvara á síðustu afmælistónleikum Guðfreðs hjálparhellu úr Söngskólanum í Reykjavík og þegar ég stýrði Kvennakór Grindavíkur á sínum fyrstu vortónleikum. Svo lánaði ég kjólinn fyrir sýninguna Þinn Falstaff hjá Nemendaóperunni, þar sem Íris Sveinsdóttir bar hann af einstakri prýði.

Meðfylgjandi mynd var tekin á Sjóaranum síkáta í Grindavík.

Saga með kjólnum: 

Ég hef bara fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessum líflega kjól. Random fólk hefur beðið um að fá að taka myndir af mér í honum og því má líklega finna mig innrammaða í kjólnum á ólíklegustu heimilum – geri ráð fyrir því.

Hlakka til að búa til fleiri sögur í þessum kjól 🙂

Keyptur: Kjólar og konfekt, ca 2017

Maíkjóllinn

Maíkjóllinn er blái kjóllinn með blómunum 🙂 Fann hann í Kolaportinu á litlar 1.000 kr. og hann hefur þjónað mér vel; á sviði, í myndatökum, í brúðkaupi, á skemmtanalífinu og við önnur tækifæri.

Saga með kjólnum: 

Það var Menningarnótt og miðbærinn troðfullur af fólki. Ég var ein á ferð, í mínu fínasta pússi, að reyna að finna mér leið í gegnum mannmergðina til að hitta vinina. Ung kona, úr gagnstæðri átt, fylgdist mjög greinilega með mér nálgast. Ég reyndi að koma henni fyrir mér; kannski var þetta fjarskyld frænka, einhver sem ég hef unnið með, stundað nám með eða eitthvað álíka – en ég mundi ekkert eftir henni. Þegar við svo loksins mætumst þá var ég komin með “ég-þekki-þig-líka” brosið og ætlaði að fara að heilsa henni.. af því að hún var augljóslega að koma að tala við mig. En þá mætti mér eitthvað allt annað. Hún setti í brýrnar, stóð fast í báðar lappir og sagði reiðilega við mig: “Þú ert eins og illa skreytt jólatré!”. 

Keyptur: Kolaportið, ca. 2012

Aprílkjóllinn

Aprílkjóllinn er einn af mínum uppáhalds sparikjólum. Það er gott að syngja í honum; þótt hann sé tekin saman í mittið – þá er hann ekki of þröngur. Mér finnst gaman að vera í bleikum sokkabuxum og nota fjólubláa og/eða gula fylgihluti til að hressa hann við.

Í apríl fórum við Svanur í roadtrip til Fáskrúðsfjarðar, þar sem við vorum í faðmi fjölskyldunnar og átum á okkur gat yfir páskana. Ég var í þessum kjól í fermingarmessunni, en gleymdi að biðja um það yrði tekin af mér mynd. Þess vegna ákváðum við að nota Skógarfoss á leiðinni til baka sem bakgrunn.

Saga aprílkjólsins: 

Þessi kjóll er í miklu uppáhaldi þessa stundina, var td. í honum í Landanum í febrúar á þessu ári. Ein mín nánasta vinkona sagði; “Þú varst eins og miðaldra kennslukona í þessu viðtali” – en aðrir voru almennt sáttir við mig, held ég.

 

Marskjóllinn

Marskjólinn er gala-söngkonukjóll. Keypti þessa dásemd í New York, í tilefni af því að ég söng á gala-tónleikum í Carnegie Hall. Eftir það hef ég m.a. sungið í honum í höll í Tonadico á Ítalíu, í Grindavíkurkirkju og í Hörpu.

Saga marskjólsins: 

Í febrúar 2017 fór ég í áheyrnarprufu í New York. Yfirleitt gisti ég hjá káts-sörferum í svona ferðum en ekki í New York, mömmu vegna. Ég splæsti í hostel, gisti í neðri koju, undir Mose – gömlum manni frá Brasilíu sem tók úr sér tennurnar áður en hann klifraði upp í efri kojuna.

Ég misskildi áheyrnarprufu-leiðbeiningar; hélt að ég ætti að æfa hlutverkið sem ég var að sverma fyrir sem var Dido í Dido and Aneas eftir Purcell. En ég átti að vera með þrjár ólíkar aríur og koma með nótur af þeim fyrir meðleikarann. Þetta uppgötvaði ég áheyrnardaginn – af því að við fengum áminningar-tölvupóst! Það var panikk… Ég fékk dýrmæta hjálp frá Jónu Fanneyju sem sendi mér skannaðar nótur af aríum sem ég hef verið að syngja og bjargaði mér fyrir horn.

Eins og venjulega, varð ég stressuð fyrir áheyrnarprufunni og var næstum búin að skrópa. Sem betur fer gerði ég það ekki, þar sem ég fékk hlutverk í óperu eftir þessa prufu og tækifæri til að syngja þekkstustu aríuna úr óperunni Dido and Aneas, When I’m laid in earth, í Carnegie Hall sem var heldur betur lífsreynsla.

Sumrinu 2017 eyddi í New York, söng í óperu-uppfærslu og á nokkrum tónleikum. Bjó í lítilli íbúð með einni stelpu frá Tyrklandi og annarri frá Hong Kong.

En ég þurfti nýjan kjól fyrir tilefnið, eins og gefur að skilja!

Í New York eru ótal verslanir og margar af þeim selja galakjóla, en mjög fáar selja kjóla í minni stærð. Ef ég fann réttu stærðina, þá væru þeir “gömlukonulegir”; svartir eða dökklitaðir. Ef ég spurði afgreiðslufólkið þá fékk ég iðulega svarið; “svart grennir” – sem er svo mikil dásemdar vitleysa. Rétt mataræði og hreyfing grennir.. svart kannski blekkir..

Ég datt í lukkupottinn þegar ég fann þennann fallega, klæðilega, rauða kjól í réttri stærð! 😀

Keyptur: New York – 2017

Febrúarkjóllinn

Febrúarkjólinn er klárlega einn mest notaði kjóllinn minn!

Fyrst var ég smá feimin við að nota hann af því að mér fannst pilsið svo prinsessulegt – en það venst voða vel 😉 Ég hef notað hann við ýmis tilefni, fór m.a. í myndatöku í honum í Bolzano á Ítalíu í tenglsum við söngprófið mitt og hef notað þær myndir nokkuð mikið, bæði hér á síðunni og til að auglýsa tónleika. Hef samt aldrei sungið í honum opinberlega.

Í dag er hann einn af mínum skvísu-hversdagskjólum.

 

Lítil saga tengd febrúarkjólnum: 

Ég var í kjólnum að bíða eftir strætó niðrí bæ. Miðaldra maður er að bíða líka. Hann segir við mig: “Þú fórst bara svona út eins og það væri í lagi?” Ég gat ekki annað en glottað og sagði bara einfalt ““. Við áttum svo fleirri orðaskipti á meðan við biðum eftir strætóunum okkar. Hann kvaddi mig að lokum með þessum orðum: “Ég vildi að það væru fleirri konur sem myndu klæða sig eins og þú – þetta er svo hressandi

 

Keyptur: Rokk og rósir (ef ég man rétt) – Reykjavík – ca 2005