Þriðja vikan

SUMAR-TÓNLISTARFESTIVAL Í FIERA DI PRIMIERO Á ÍTALÍU. FER MEÐ HLUTVERK MORGANA Í ÓPERUNNI ALCINA EFTIR HÄNDEL.

Þessi vika leið hratt og lífið er komið í nokkurs konar rútínu. Það var mikið um sýningar og tónleika enda er festivalið byrjað á fullu. Óperu-uppfærslurnar, allar fjórar, eru að taka á sig mynd og fyrsta frumsýningin verður næsta miðvikudag.

Þetta var síðasta vikan sem við fengum tíma hjá raddþjálfurunum, minn þjálfari var Harolyn Blackwell; stórkostleg söngkona og frábær kennari. Ég nýtti tímann vel og suma dagana fór ég í tvo söngtíma, enda er ég ótrúlega ánægð með hennar aðferðir og sátt við tóninn sem hún nær úr mér. Hún kennir eftir aðferð Berton Coffin, sem ég ætla klárlega að leggjast betur yfir og stúdera.
Blackwell og maðurinn hennar fóru í dag. Hún bennti mér á söngkennara hérna á Ítalíu, Sherman Lowe, sem kennir sömu söngtækni og  er tilbúinn að taka mig í tíma ef ég ákveð að koma hingað aftur. Er mjög spennt fyrir því ☺️

Á morgun, mánudag, syng ég á galatónleikum í Tonadico. Æfingar fyrir Alcinu ganga vel og allir eru ferskir.

Önnur vika

SUMAR-TÓNLISTARFESTIVAL Í FIERA DI PRIMIERO Á ÍTALÍU. FER MEÐ HLUTVERK MORGANA Í ÓPERUNNI ALCINA EFTIR HÄNDEL.

Önnur vikan á þessu festivali var heldur betur erfið líkamlega – við förum á fullt að sviðsetja óperurnar.

Andjela Bizimoska leikstýrir óperunni sem ég syng í og meginþorri vikunnar fór í sviðsvinnuna. Það kom okkur, söngvurunum, töluvert á óvart hversu gróf uppsetningin er; kynlífssenur, hópkynlíf og ofbeldi. Þarf að fróa mér í miðri aríu, skríða á gólfinu, rúlla mér með rekkjunaut o.s.frv. Það er mikil áskorun að syngja með fullum stuðning þannig að það berist yfir heila hljómsveit; liggjandi á maganum; á bakinu; og öllum hinum stellingunum.
Morgana (hlutverkið mitt) er systir Alcinu, sem er drottning á ævintýraeyju. Þær systurnar notfæra sér þá karlmenn sem koma á eyjuna; daðra við þá, sofa hjá þeim eftir geðþótta en breyta þeim svo í dýr, steina eða tré ef þeir sýna mótþróa eða ef þær fá leið á þeim. Frá upphafi var ég hrikalega spennt yfir því að hafa fengið þetta hlutverk, sem fyrir mér þýddi mikil reynsla og mikil sviðsvera – sem mig þyrstir í. En mig grunaði aldrei að þetta yrði svona svakalega kynferðisleg uppsetning.

Annað – í stuttu máli:

Fékk fjóra söngtíma hjá Harolyn Blackwell, er mjög sátt með það sem hún er að hjálpa mér með. Hún kom á sviðsvinnu-æfingu og sá þar hversu miklar hreyfingar ég þarf að gera á meðan ég syng. Hún ætlar að hjálpa mér í gegnum það ásamt:
-staðsetja tóninn þannig að hann nái að skera í gegnum stóra hljómsveit
-anda betur aftur í bak
-ekki opna of mikið og gleypa tóninn
-o.fl.

Couching með Tim Ribchester, hljómsveitarstjóranum í Alcina, til að vinna hlutverkið mitt, Morgana. Ómetanlegt að fá einkatíma með honum, náðum að gera svo mikið.

Æfing vegna Gala-óperu tónleika með Lachlan Glen. Við höldum nokkra Gala tónleika á vegum festivalsins.

Söngvarahópurinn í Alcinu fékk tvisvar sinnum framburðarþjálfun í ítölsku með Manzi.

Þessi viðburðarríka vika endaði með Gala tónleikum á útisviði í Mezzano, sem gekk vel. Ég er blá og marin, þreytt og tætt eftir kynsvallið og ofbeldið. Til að halda heilsu og lina verkina fer ég reglulega í sund og teygi á áður en ég fer að sofa. Þótt þetta sé líkamlega erfið vinna þá er þetta líka þrusu gaman og hópurinn sem ég er að vinna með er algjörlega frábær!

Fyrsta vikan

Sumar-tónlistarfestival í Fiera di primiero á Ítalíu. Fer með hlutverk Morgana í óperunni Alcina eftir Händel.

 

Fyrsta vikan í þessu dásamlega ævintýri er búin. Þetta var lærdómsrík og skemmtileg vika og ég hlakka til framhaldsins. Svona hafa dagarnir verið, í stuttu máli:

 

Mánudagurinn 2. júlí

Morgunfundur á hótelinu með öllum söngvurunum. Hljómsveitastjórarnir, raddþjálfarar og annað starfsfólk kynnt. Fengum leiðsögn um bæinn, aðallega til að við getum ratað á æfingasvæðið og í leikhúsið þar sem óperurnar verða fluttar.

Eftir hádegishlé var áheyrnarprufa, fyrir óperu-gala tónleika sem verða á vegum festivalsins. Allt starfsfólkið hlustaði. Ég söng Thy hand Belinda – When I’m laid in earth úr óperunni Dido and Aneas eftir Purcell. Ég var óþarfa stressuð, en það gekk samt vel. Erum ekki búin að fá að vita hver syngur  á tónleikunum.

 

Þriðjudagurinn 3. júlí

Morgun-Masterclass með Mitchell Piper, sem er stjórnandi og aðalmaður þessa festivals. Hann rekur líka umboðsskrifstofu fyrir söngvara; Piper Anselmi Artist Management.

Ég söng Meine lippen sie küssen so heiss úr Giuditta eftir Lehàr. Piper sagði m.a.:

“Þú ert mjög góð í að segja sögu. Talar beint til áheyrandans og fólki líður eins og þú sért að tala við það persónulega. Hlý og einlæg. Þarft að leyfa líkamanum að taka meiri þátt í því sem þú ert að gera.”

Svo gerði hann nokkrar æfingar með mér – til að anda betur niður – til að fá meira sound – “woman voice” í stað þess að hljóma eins og stelpa o.sfrv. Hann sagði líka að ég hafi mjög mikla útgeislun og tjáningu í andlitinu sem er kosturinn minn – ekki glata því!

Eftir hádegi fékk ég einkatíma með hljómsveitastjóranum, Tim Ribchester, sem mun stjórna óperunni Alcina eftir Händel. Hlutverkið sem ég fer með, Morgana, er næst stærsta kvenhlutverkið í óperunni og það var mikilvægt að fá þennan tíma með honum til að samstilla okkar hugmyndir.

 

Miðvikudagurinn 4. júlí

Amma mín, Sigríður Reimarsdóttir, dó á Hrafnistu í Hafnafirði. Það kom niðurslag hjá mér og mig langaði ekki til að vera hérna lengur – finnst ömurlegt að vera í útlöndum og geta ekki tekið þátt í lífinu með fólki mínu heima. En ég held að amma hafi verið stolt af því sem ég er að gera. Undanfarin ár hef ég alltaf sent henni póstkort þegar ég fer til nýrra staða og segi henni frá söngævintýrum mínum í útlöndum. Ég var nýbúin að kaupa eitt slíkt héðan, sem ég var of sein að senda. Síðast þegar ég sá ömmu var á tónleikunum mínum í Hörpu, 27. maí. Sigga amma var yndisleg kona sem ég er heppin að hafa átt að.

Þennan dag átti ég fyrsta einkatímann með raddþjálfaranum mínum á þessu festivali, Harolyn Blackwell. Hún er reynslubolti í bransanum, var m.a. fastráðin við Metropolitan óperuna. Skiljanlega var þetta ekki besti dagurinn fyrir mig til að syngja, en ég reyndi þó. Í lok aríunnar runnu tárin ósjálfrátt niður kinnarnar á mér, Blackwell tók utan um mig og sagði að við ættum bara vinna þennan tíma upp annan dag. Mannleg viðbrögð sem ég kann að meta.

Seinnipart dags var löng recitative (talsöngs) æfing á Alcinu með hljómsveitastjóranum.

 

Fimmtudagurinn 5. júlí

Morgun-æfing: Æfing – Alcina

Eftir hádegi: Crossover-Masterclass með Blackwell.

Söng The girl in 14g

Hún vann það vel með mér, aðallega til auðvelda breytingarnar á milli stíla.

Seinni partur: Æfing – Alcina Rec. og kórar

 

Föstudagurinn 6. júlí

Morgun: Tónlistar rennsli á óperunni Alcina, tvisvar sinnum.

Eftir hádegi: Þrír ólíkir Masterclassar sem við gátum valið á milli: Jeanne-Michele Charbonnet, Harolyn Blackwell eða Neil Rosenshein. Ég hlustaði á Charbonnet en náði ekki að syngja – voru of margir á undan mér.

 

Núna er helgarfrí, sem við eigum að nýta til að fínpússa aríurnar okkar og læra allt utanað. Á mánudaginn byrjar sviðsvinnann og þá megum við ekki lengur hafa nóturnar hjá okkur. Hlakka til!

 

 

Söngárið 2017

Söngárið 2017 hófst 5. janúar með tónleikum í Salnum í Kópavogi. Tónleikarnir voru í tilefni af masterprófi frá Conservatorio Monteverdi í Bolzano á Ítalíu. Með mér var frábært tónlistarfólk; Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari og Nandllely Aguilar Peña fiðleikari.

Gunnlaugur Snædal og sonur hans Kári Snædal tóku tónleikana upp og gerðu mér kleift að dreifa þeim á vefheima. Það er ómetanlegt að fá svona flotta afurð, faglega unnið og fallega uppsett. Er þeim ævinlega þakklát.

Tónleikarnir eru á youtube: hér.

 

Ég fór á Masterclass á Ítalíu, Líkamstjáning í barokklist, hjá Deda Cristina Colonna. Deda er dansari og leikstjóri, sérhæfð í barokklist. Það var einstakt að fá hennar sýn á viðfangsefni sem ég hef bullandi áhuga á. Þessi masterclass dýpkaði sannarlega skilning minn á líkamstáknum, tjáningu og táknlæsi. Á árinu hef ég haldið fyrirlestur og námskeið í Listaháskóla Íslands og við Söngskólann í Reykjavík um málefnið. Á næsta skólaári mun ég einnig kenna efnið við Háskóla Íslands.

 

Í lok febrúar flaug ég til New York í fyrirsöng. Ég gisti á ódýru hosteli og deildi koju með eldri manni, Mosé frá Brasilíu. Hann talaði hvorki ensku, spænku né ítölsku en við reyndum samt að spjalla annars lagið. Mosé tók úr sér tennurnar og setti í glas við vaskinn áður en hann klifraði upp í kojuna. Herbergið okkar var á sjöttu hæð og lyftan var biluð.

En þetta borgaði sig – ég var valin úr hópi umsækjanda til að syngja á sumarfestivali MOS 🙂 Ég flaug því aftur til New York í júní og sumarið var ævintýralegt! Festivalið er fyrir unga atvinnusöngvara; við fengum þjálfun í að fara í áheyrnarprufur; fengum masterclass hjá Roger Malouf, hljómsveitarstjóra við Metropolitan óperuna og masterclass hjá Lewis Ehlers, hjá umboðsstofunni Lombardo. Ég fór með hlutverk fyrsta drengs í Töfraflautunni eftir Mozart, í niðurgröfnu leikhúsi undir kaþólskri kirkju í borginni. Festivalinu lauk með ógleymanlegum Gala-tónleikum í Carnegie Hall þar sem ég söng aríu og quintett. Anna Sigga og Yngvi mættu á óperu-uppfærsluna og á tónleikana sem er mér ómetanlegt!

 

Alessandra Brustia, píanóleikari og prófessor frá Róm kom til Íslands. Hún kennir við Conservatorioið í Bolzano, þar sem ég stundaði masternámið mitt, við kynntumst þar. Hún var ein af prófdómurum á lokatónleikunum mínum við skólann. Eftir prófið sagði hún: “Mig langar til að vinna með þér!”. Við létum verða að því, settum saman tónleikaprógramm og hún fékk Erasmus-styrk til að kenna við Listaháskólann. Hún kenndi líka einkatíma eða masterclass í Menntaskólanum í tónlist og við Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Við héldum tónleika í Reykjavík, á Djúpavogi, á Fáskrúðsfirði og í Grindavík. Brustia er þvílík listakona og ég hlakka til að vinna meira með henni í framtíðinni.

 

Síðast en ekki síst eru það Jólanornirnar! Ég datt heldur betur í lukkupottinn þegar ég fékk boð um að bætast í þann fagra hóp. Æfingatímabilið var hrikalega skemmtilegt og við héldum tvenna tónleika í Snorrabúð. Jólanornirnar eru ásamt mér: Arnhildur Valgarðsdóttir, Elsa Waage, Íris Sveinsdóttir og Svava Kristín Ingólfsdóttir. Það líklegt að við verðum Þorranornir áður en langt um líður.. það verður spennandi! 😀

 

Annað skemmtilegt:

  • Ég var ráðinn skrifstofustjóri við Söngskólann í Reykjavík
  • Ég gaf út jólalagið, Jólakvöld, tileinkað mömmu minni Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur. Sigurður Helgi lék á píanóið og Haffi Tempó tók okkur upp. Tommi, Andri og Ernir gerðu myndband við lagið og settu það á youtube: hér.
  • Flutti ljóðaflokk á Off-venue Airwaves í Hannesarholti ásamt Sigurði Helga Oddsyni Píanóleikara
  • Söng Mozart-tónleika í Herz Jesu Kirche í Bolzano, undir stjórn Karl Paller
  • Var gestur hjá Tríói Sírajón á austfjörðum; á Eskifirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði. Tríóið skipa: Laufey Sigurðuardóttir fiðla, Einar Jóhannesson klarinett og Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanó
  • Var kynnir og söngkona á afmælistónleikum Guðfreðs í Langholtskirkju
  • Hélt hádegistónleika í Fríkirkjunni ásamt Sigurði Helga Oddsyni píanóleikara
  • Var meðlimur í Óperukórnum í Reykjavík undir stjórn Garðars Cortes; m.a. Requiem eftir Mozart
  • Söng hátíðartónið eftir Bjarna og einsöng á aðfangadag í Fáskrúðsfjarðarkirkju

 

Stelpurnar okkar

Í gær var stórleikur hjá stelpunum okkar í Hollandi. Þær stóðu sig vel og við megum vera stolt af þeim. Við Grindvíkingar erum extra stolt, þar sem við eigum eina dóttur í A-liðinu, Ingibjörgu Sigurðardóttur. Hún er okkur til mikils sóma! Hún var pirruð í sjónvarpsviðtali eftir leikinn en hafði samt tök á skapinu, sem mér finnst aðdáunarvert hjá keppniskonu.

Það er gaman að vera Íslendingur á svona dögum. Þegar strákarnir okkar gerðu það gott í fyrra var ég stoltur Íslendingur á Ítalíu. Það voru allir að tala um Ísland; Karlinn á pósthúsinu sagði að ég þyrfti ekki að borga fyrir sendinguna þegar hann sá að áfangastaðurinn var Ísland; Eigandi barsins í nágrenninu bað okkur Íslendingana að horfa á leikina hjá sér, við fengum bestu sætin og frían bjór; Vinir mínir í Kosta Ríka báðu mig um að senda sér íslenska landsliðstreyju; Skólasystur mínar frá Mexikó urðu ástfangnar af íslenskri karlmennsku; o.s.frv. Ég vona að Íslendingar í útlöndum fái sama viðmót í tengslum við mótið hjá stelpunum. Þær eru að spila vel og að sýna frábæran karakter.

Mig langar til að deila með ykkur laginu sem Íslendingar syngja í tengslum við fótboltaviðburði, af slíkum samhug að það hreyfir við heimsbyggðinni. Lagið er hér. Sumir ganga svo langt að heimta að þetta verði nýji þjóðsöngur Íslendinga, en þetta er erlent lag. Reyndar er þetta “aría” úr óperettu eftir Kalmán. Klassískt, dásamlegt og fallegt.

Áfram stelpurnar okkar!

 

Stutt í næstu brottför

Í dag eru nákvæmlega 2 mánuðir í að ég standi á sviðinu í Carnegie Hall á Gala tónleikum! Þar mun ég syngja aríuna When I am laid in Earth úr Dido and Aneas eftir Purcell og “Aðra dömu” í Nur Stille Stille úr Töfraflautunni eftir Mozart.

Það er örlítill spennuhnútur búinn að hreiðra um sig í mallanum á mér – sem veldur því að aðra stundina ljóma ég sem sólin en hina hvæsi ég sem norn. Það er því mjög spennandi að vera í kringum um mig þessa dagana, kem sjálfri mér á óvart.

Þegar ég fór til New York í áheyrnarprufuna upplifði ég svipaðan spennuhnút; ég var við það að hætta við í hverju skrefi. Sigga syss getur staðfest það. Hún skutlaði mér á flugvöllinn, henti mér hálfkjökrandi út úr bílnum en beið svo dágóða stund fyrir utan flugvöllinn til að taka á móti mér ef ég skyldi hlaupa út aftur. En sem betur fer gerði ég það ekki.

Þessar nætur sem ég var í New York, út af áheyrnarprufunni, gisti ég í koju á hosteli. Í efri kojunni var Moses; ósköp indæll, gamall maður frá Brasilíu, sem tók út úr sér tennurnar áður en hann klifraði upp stigann í kojuna sína. Hann hraut hátt og ég kúrði með veskið mitt vafið um hendina. Að kveldi hvers dags sýndi Moses mér myndir frá söfnum borgarinnar sem hann tók á símann sinn – það var bara notarlegt. Góður karl. Ég mun samt ekki sofa aftur í koju þegar ég fer út núna í júní.

Áheyrnarprufu-daginn fékk ég tölvupóst, til áminningar um að koma með aukanótur af öllum þremur aríunum sem ég ætlaði að syngja. Ég var bara með eina aríu! Það fór því allt í panik og enn einu sinni hugsaði ég um að hætta við. En með dýrmætri hjálp frá Jónu Fanney náði ég að redda nótum af tveimur aríum í viðbót, sem ég kunni utanbókar og voru í réttri tóntegund. Hún átti nóturnar í tölvunni, sendi það á hostelið og móttökudaman prentaði aríurnar út fyrir mig – samdægurs! Úbbosí! Ég mætti svo í áheyrnarprufuna og hét því að segja engum frá þessu klúðri..

Stuttu eftir að ég kom heim fékk ég tölvupóst um það að ég hafi verið valin úr hópi umsækjenda, til að syngja á sumar-festivali á vegum Manhattan Opera Studio í New York. Festivalið hefst 12. júní og líkur með tónleikunum sem ég talaði um hér að ofan, 11. júlí. Ásamt því að syngja á þeim tónleikum fer ég með hlutverk “Fyrsta drengs” í Töfraflautunni eftir Mozart sem sett verður upp á þýsku. Einnig syng ég aríuna L’ho perduta úr Brúðkaupi Fígaós eftir Mozart og Papageno and Papagena’s duet úr Töfraflautunni eftir Mozart á tónleikum í The National Opera Center.

Ég læt fylgja með upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast miða: 

3. júlí, kl. 16:00 Tónleikar í The National Opera Center

Syng aríuna L’ho perduta úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart og Papageno and Papagena’s duet úr Töfraflautunni eftir Mozart

Hægt að nálgast miða inná: http://www.manhattanoperastudio.org/shop/national-opera-center-opera-concert-4pm-session1

9. júlí, kl. 14:30 Töfraflautan eftir Mozart í MOS Opera Theater at St Jean Baptist

Fer með hlutverk Fyrsta drengs. Óperan verður sett upp í fullri lengd með hljómsveit.

Hægt er að nálgast miða inná: http://www.manhattanoperastudio.org/ticketsf

11. júlí, kl. 19:30 Galatónleikar í Carnegie Hall

Syng aríuna When I am laid in Earth úr Dido and Aneas eftir Purcell og Nur Stille Stille (önnur dama) úr Töfraflautunni eftir Mozart

Hægt er að nálgast miða inná: https://www.carnegiehall.org/Calendar/2017/7/11/0730/PM/Manhattan-Opera-Studio-Gala/

Mikið væri nú gaman að sjá kunnugleg andlit í New York í sumar!

 

Gleðilega páska

Í dag er ekki bara páskadagur heldur líka Alþjóðlegur dagur raddarinnar. Ég óska ykkur því góðrar raddheilsu í dag sem og aðra daga.

Mín raddbönd eru nú þegar orðin súkkulaðihúðuð og sykursæt, enda óstöðvandi sælkeri 🙂

Gleðilega páska og njótið dagsins!

Íslenska óperan

Í október lauk ég mastergráðu í söng frá Ítalíu, með hæstu einkunn. Eftir útskrift fékk ég tilboð frá prófessorum við skólann um áframhaldandi samstarf sem var gott veganesti inn í framtíðina sem klassískt menntuð söngkona. Til að auka enn gleði mína auglýsti Íslenska óperan fyrirsöng, rétt eftir að ég kláraði námið mitt. Ég skipulagði verkefnin mín og ferðir í kringum þennan fyrirsöng; söng í messu eftir Mozart á Ítalíu, sótti masterclass í líkamsbeitingu á sviði, fór í fyrirsöng í New York, en keypti flugmiða beint heim svo ég gæti mætt í fyrirsöng hér heima.

Íslenska óperan hafði hins vegar ekki áhuga á að hlusta á mig. Ég fékk boð um að mæta ekki í þennan fyrirsöng.

Skilaboðin voru þessi: „Alls bárust 56 umsóknir en því miður verður ekki mögulegt að bjóða þér að koma í fyrirsöng að svo stöddu. Næsti fyrirsöngur verður haldinn í byrjun næsta árs og verður auglýstur þegar nær dregur.“

Þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ höfnun af þessu tagi. Alls staðar sem ég hef sótt um hef ég fengið tíma til að syngja eða verið beðin um að senda upptöku. Þess vegna finnst mér skrítið að fá þessa neitun frá Íslensku óperunni. Ég bað skriflega um nánari skýringu á höfnuninni og fékk þá eftirfarandi tölvupóst:

„Sæl Berta Dröfn, þegar val umsókna fer fram er það ekki rökstutt hvorki hjá okkur né öðrum óperuhúsum frekar en þegar um keppnir er að ræða eða t.d. úthlutun listamannalauna.“

Ég er búin að hugsa töluvert um þetta svar og kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að það er ekki ásættanlegt. Ekki eingöngu þessi framkoma við mig heldur ef þetta er það sem mætir útskrifuðum söngvurum sem vilja snúa heim að námi loknu. Við fáum ekki einu sinni tækifæri. Ég er alls ekki að segja að þau hefðu þurft að ráða mig, en mér hefði þótt eðlilegt að fá að mæta og syngja. Þetta viðmót segir mér að ungir íslenskir söngvarar eru ekki velkomnir heim.

Annars er bara allt gott að frétta. Ég fékk ekki tækifæri til að mæta í fyrirsöng á vegum Íslensku óperunnar, en ég fékk hlutverk eftir fyrirsönginn í New York. Sumarið verður spennandi þar sem ég mun annars vegar syngja hlutverk í Töfraflautunni eftir Mozart og hins vegar aríu og ensamble á tónleikum í Carnegie Hall.

Ég er ekki viss um að ég hafi áhuga á því að skipuleggja verkefnin mín og ferðalög aftur í kringum fyrirsöng við Íslensku óperuna.

 

Baráttukveðjur til íslenskra söngvara

 

Viðtal

Viðtal sem var birt í tímariti Vikunnar, í upphafi árs 2017.
Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Studdu mig af þolinmæði
Söngkonan Berta Dröfn Ómarsdóttir útskrifaðist nýlega með mastersgráðu í ljóða- og kirkjusöng frá tónlistarháskóla á Ítalíu. Þrátt fyrir að hafa glímt við lesblindu alla tíð fékk hún hæstu einkunn fyrir lokaritgerðina og þakkar það þolinmóðum kennurum úr grunnskóla, móður sinni og systur sem gerðu henni kleift að ganga menntaveginn.

„Ég hef alltaf verið syngjandi, var fremur hávær krakki sem ég held að sé kostur vegna þess að ég fór strax að brýna röddina. Þegar við fluttum til Grindavíkur byrjaði ég í barnakórnum hjá Siguróla Geirssyni og Vilborgu Sigurjónsdóttur. Þar fékk ég fljótt tækifæri til að syngja einsöng við hin ýmsu tilefni, aðallega í kirkjunni hjá mömmu. Ég og vinkona mín vorum yngstar í kórnum og vissum ekki einu sinni hvernig við áttum að snúa sálmabókinni sem við þóttumst vera að syngja upp úr,“ byrjar Berta sem er fædd í Reykjavík og bjó þar fyrstu árin meðan foreldrar hennar voru í námi. Móðir hennar, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, er prestur og tók við sem sóknarprestur í Grindavík þegar Berta var sex ára og alla grunnskólagönguna bjó hún í Grindavík. Hún á fjórar systur, eina eldri og þrjár yngri. „Ég stundaði tónlistarskólann samhliða grunnskólanum, bæði söngtíma og píanó. Á unglinsárunum söng ég með unglingakór hjá Esther Helgu Guðmundsdóttur og sótti einkatíma til hennar. Þegar ég var 16 ára hóf ég söngnám við Söngskólann í Reykjavík, fyrst hjá Elísabetu F. Eiríksdóttur og síðar hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur.
Uppvaxtarárin voru skemmtileg. Það var einstaklega gaman að vera barn í Grindavík enda voru bekkjasystkin mín fjörugur hópur og ýmislegt brallað. Á sumrin og oft í löngum fríum fórum við fjölskyldan austur, vegna þess að foreldrar mínir eiga bæði sínar rætur þar. Mamma mín er frá Fáskrúðsfirði en pabbi minn úr Breiðdalnum. Þess má geta að mamma er flutt aftur á sínar æskuslóðir, en hún er prestur á Fáskrúðsfirði.“

Litríkar nótur vegna lesblindu
Fljótlega uppgötvaðist að Berta er lesblind og þurfti að sækja alla námsaðstoð sem í boði var í Grunnskóla Grindavíkur. „Frá upphafi fékk ég aukatíma í lestri og eftir venjulegan skóladag fékk ég aðstoð við heimanámið bæði í sérkennslu á vegum skólans og líka heima. Helstu námsgögnin fékk ég send frá Blindrabókasafninu og prófin voru annað hvort lesin upp fyrir mig eða á snælduformi. Í lok grunnskólagöngunnar var ég komin með hjálpartæki við lesturinn, lesgleraugu með dökk-fjólubláu gleri og litaðar glærur sem var þvílík bylting fyrir mig. Á menntaskólaárunum var ég orðin nokkuð sjálfbjarga við lesturinn og búin að þróa með mér aðferðir sem virka fyrir mig. Í dag hrjáir lesblindan mér raun ekki neitt, ég er meira að segja fyrir löngu farin að lesa mér til gamans. Ég er meðvituð um það að ég þurfi að vanda mig sérstaklega þegar kemur að stafsetningu og ég rugla ennþá vissum stöfum, bæði þegar ég skrifa og les, sérstaklega b, d, p og e, a. Þegar ég les týni ég stundum línunni og augað leitar lóðrétt í stað þess að fara lárétt og stundum vill augað fara eins og ormur um blaðsíðuna. Þetta getur háð mér í nótnalestri, sérstaklega þegar verkið er margsamsett. Þá nota ég liti og er alltaf með nokkra yfirstrikunarpenna til að merkja mína línu, einn lit í upphafi línunnar sem ég þarf að fylgja, annan lit yfir textann minn og þriðja fyrir styrkleikabreytingar þegar þess þarf. Stundum set ég fjórða litinn yfir nóturnar fyrir ofan textann minn en það gerist ekki oft. Einhverra hluta vegna finnst mér best að lesa bleikan yfirstrikunarpenna og nota hann því alltaf yfir textann sem ég þarf að syngja en ég get ekki lesið gulan yfirstrikunarpenna, eins ef ég fæ gult blað, ræð ekki við það. Ég er oft vinsæl meðal söngsystra minna, þegar ég syng í kór, því nótnablöðin mín eru eins litrík og fatastílinn minn,“ segir Berta.
Hún er sannfærð um að góður undirbúningur á hennar yngri árum hafi gert henni kleift að ganga menntaveginn. „Mamma, Sigga systir mín og kennararnir mínir í Grunnskóla Grindavíkur hjálpuðu mér og studdu mig af þvílíkri þolinmæði en ég var oft erfið viðureignar. Það var margt meira spennandi en að reyna að lesa og ég beitti ýmsum brögðum til að komast sem fljótast í gegnum þetta. Var ansi frjó að skálda orð, ef mér tókst að lesa fyrsta stafinn þá giskaði ég oftast á framhaldið – gerði þetta í mörg ár. Mér tókst að fara í gegnum masternámið án þess að nokkur vissi að ég væri lesblind og ég fékk enga sérmeðferð. Ég er aðeins lengur að lesa en gengur og gerist en þetta gengur vel. Ég hef alltaf sagt að þolinmæði og agi séu mikilvægustu eiginleikarnir, bæði þegar kemur að lesblindu og raddþjálfun. Þegar ég skilaði inn lokaritgerðinni minni fann ég fyrir einstöku þakklæti en þá fattaði ég hversu góðum tökum ég hef náð á lesblindunni. Þetta hefði aldrei gengið upp ef ég hefði ekki fengið svona góðan grunn sem Grunnskólinn í Grindavík, mamma mín og Sigga syss eiga heiðurinn að.“

Féll fyrir Ítalíu
Að loknu stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja flutti Berta til Flórens og lauk diplómanámi í fatahönnun. Hún varð ástfangin af landi og þjóð og fór í framhaldinu í BA-nám í ítölsku og listfræði við Háskóla Íslands. Eftir útskrift starfaði hún meðal annars sem ítölskumælandi leiðsögumaður á Íslandi og var því vel undirbúin þegar hún sótti um meistaranám í skólanum Conservatorio Claudio Monteverdi í Bolzano á Ítalíu.
„Ég lauk burtfaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2013 hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Í kjölfarið fór ég til Ítalíu í könnunarferð til að velja mér skóla til að stunda masternám. Ég er með Ítalíudelluna, gjörsamlega elska þetta land. Ég er mikill nautnaseggur og listunnandi þannig að það er ekki skrítið að ég hafi fallið fyrir Ítalíu. Á Íslandi er ekki boðið upp á masternám í söng og því þurfum við að leita út fyrir landsteinana ef við viljum mennta okkur frekar í söng. Ítalía var því nokkuð augljóst val fyrir mig þegar ég ákvað að sækja um masternám í söng. Ég valdi þennan tónlistarháskóla sérstaklega vegna söngkennarans sem mig langaði til að læra hjá, Sabinu von Walther, sem er þekkt ljóðasöngkona.
Skólinn var flókinn til að byrja með. Ég var eini Íslendingurinn á mínu fyrsta ári og þekkti engan. Fyrirkomulagið í skólanum er þannig að hver nemandi setur saman sinn eigin námsferil innan vissra marka. Svo fylgjast nemendur með skilaboðum frá prófessorum á risastórri korktöflu við inngang skólans. Skilaboðin eru um hvenær kúrsar hefjast, kennsluáætlun og verkefnaskil, hvaða netföng prófessorar eru með, forföll og svo framvegis. Mér fannst þetta alveg hrikalega flókið enda góðu vön úr tæknivæddum heimi á Íslandi þar sem nemendur fylgjast með allri sinni námsframvindu á vefnum.“
Bolzano er tvítyngd borg með bæði ítölsku og þýsku og skólinn einnig. Berta valdi að sækja kúrsana sem kenndir eru á ítölsku en stundum þurfti hún að taka kúrsa á þýsku og það gekk betur en hún átti von á. Lokaritgerðina skrifaði hún á ítölsku. „Yfirskrift ritgerðarinnar er: Líkaminn er táknmynd sálarinnar. Þar tek ég fyrir hin ýmsu tákn í líkamstjáningu á sviði og ber það saman við þekkt listaverk frá sama tímabili í listasögunni. Tímabilið sem ég valdi að vinna út frá er barokk. Líkamstjáningin er út frá tilfinningu sem sögupersónan upplifir og túlkar hverju sinni. Ég valdi barokk-tímann vegna þess að þá voru listamenn með ákveðna stefnu í að miðla og fræða áhorfandann hvort sem það voru málarar eða sviðslistamenn. Þar af leiðandi var myndlæsi og táknlæsi mikilvægt fyrir listamenn og reyndu þeir að samræma sig til að skilaboðin, merking og saga, kæmust sem best til áhorfandans. Ritgerðin er 90 blaðsíður á ítölsku og þar sem ég næ að sameina öll mín helstu áhugamál; sönglist, sviðslist, tónlist, listasögu, barokk og ítalskt tungumál. Vinkona mín, Sonja Haraldsdóttir, teiknaði fyrir mig fígúrur sem lýsa vel þeirri líkamstjáningu sem ég tek fyrir. Fígúrurnar setja svo sannarlega svip sinn á ritgerðina. Ég er einstaklega stolt af þessari ritsmíð, hún er persónuleg, áhugaverð og falleg – ég naut þess að skrifa hana.“

Erfiðast að vera frá fjölskyldu
Berta útskrifaðist í október síðastliðnum og býr ennþá með annan fótinn ytra. Hún er einhleyp og barnlaus og bjó á herbergi í heimavist á námstímanum. „Heimavistin er bæði fyrir þá sem eru í Tónlistarháskólanum og Háskólann í Bolzano. Þar kynntist frábæru fólki frá öllum heiminum og bæði Íslendingarnir, heimamenn og fleiri reyndust mér ofsalega vel. Það fer vel um mig í Bolzano, ég kann vel að meta fjölbreytnina í þeirri litlu borg. Hún stendur alveg við landamæri Austurríkis og sameinar það besta frá Ítalíu og Austurríki, sérstaklega í matargerð. Þar er hægt að fá æðislega pastarétti, pizzu, vín og klikkað tiramisú en líka skánka, pylsur, krát og hveitibjóra. Jólamarkaðurinn í borginni er einfaldlega dásamlegur og margir ferðamenn sækja borgina heim út af honum. Náttúran er einnig merkileg en borgin er alveg við ítölsku Alpana, vinsæll staður fyrir skíða-, göngu- og hjólaferðir. Listalífið í borginni er æðislegt. Þar eru mjög reglulegir tónleikar, óperuuppsetningar og annað sem vert er að sækja.
En það er oft erfitt að vera svona langt í burtu, sérstaklega þegar eitthvað er að gerast heima. Tæknin færir mann samt nær fólkinu sínu og oft getur maður tekið virkan þátt í lífinu heima í gegnum Skype. Án efa er erfiðast að búa erlendis þegar andlát verður heima. Því miður hefur það gerst þegar ég hef ekki átt heimangengt og mér fannst það hræðilegt.
Það er gott að búa á Ítalíu, rétt eins og hérna heima líka. Ítalir skipuleggja líf sitt í kringum máltíðir, mikilvægustu stundir dagsins eru morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur. Eftir hverja máltíð má ekki fara of hratt af stað, sama hver verkefnin eru. Fyrir mig, Íslendinginn, fannst mér erfitt að venjast þessu í fyrstu. Mér finnst miklu minna verða úr deginum með öllum þessum matarpásum og hvíldum. En ég verð að viðurkenna að ég kann að meta þennan lífsstíl núorðið. Við mættum ef til vill læra aðeins af Ítölum hvað þetta varðar.
Lífið mitt er fjölbreytt, grámyglaður hversdagsleikinn er ekkert að hrjá mig. Ég er ævintýrakona, þarf alltaf að vera á ferðinni og á erfitt með að vera of lengi á einum stað. Fjölskyldan mín, ættingjar og vinir vita það og það er mér mikilsvirði. Þau þekkja mig, styðja mig, heimsækja mig og taka vel á móti mér þegar ég kem heim. Ég hef verið á ferðinni erlendis og hérlendis síðan ég var 17 ára, en ég finn meira og meira fyrir því að vilja rækta ræturnar. Ég vil ekki gleymst heima, ég er útlendingur á Ítalíu.“

Söngvarakeppnir á Íslandi og Ítalíu
Hún segir að atvinnumöguleikarnir í söngnum séu svipaðir og í öðrum listgreinum, það þurfi að sækja prufur, sýna sig og sanna. „Ég fékk góðan meðbyr þegar ég lauk náminu mínu, útskrifaðist með hæstu einkunn og er því tilbúin að taka slaginn. Ég fékk beiðni frá tveimur prófessorum við skólanum um áframhaldandi samstarf eftir útskrift sem er mikill heiður og ég tók því auðvitað. Þegar ég lauk náminu þurfti ég að flytja af heimavistinni. Ég pakkaði aleigunni í kassa en veit ekki alveg hvar ég tek upp úr þeim kössum. Í lok janúar fer ég aftur til Bolzano til að syngja í messu eftir Mozart, þaðan fer ég svo í prufusöng í New York.
Eins og ég sagði áðan finnst mér miklivægt að ég haldi tengslum við Ísland og þess vegna ákvað ég að halda tónleika í Salnum í Kópavogi þann 5. janúar síðastliðinn. Ég safnaði fyrir tónleikunum á Karolina Fund til að standa undir kostnaðinum sem fylgir tónleikahaldi. Söfnunin gekk vonum framar og ég náði upp í kostnað. Efnisskráin samanstóð af uppáhaldsaríunum mínum og ljóðunum úr náminu úti og tónleikarnir heppnuðust mjög vel.“
Berta er að stíga sín fyrstu skref sem söngkona á erlendri grundu. Síðasta sumar söng hún ljóð eftir Brahms í Montepulciano í Toscana-héraðinu, undir handleiðslu þýskra söngþjálfara. Einnig hefur hún sungið í kastala í Prissiano, litlu fjallaþorpi við ítölsku Alpana og í óperuuppsetningum, meðal annars með sinfóníuhljómsveitinni í Bolzano. „Í nóvember tók ég þátt í söngvarakeppni í Scala-óperunni í Mílanó sem var hrikalega spennandi tækifæri enda eitt frægasta óperuhús í heimi. Margir keppendur taka þátt í mismunandi greinum og tók ég þátt í ljóða- og oratoríukeppninni. Þetta var algjört ævintýri og gekk mjög vel. Nokkur spennandi verkefni eru á næsta leiti, meðal annars söngvarakeppni hér heima á vegum Félag íslenskra söngkennara og námskeið á Ítalíu sem tengist lokaritgerðinni minni, um líkamstjáningu á sviði í barokklist. Framundan er listamannalífið í hnotskurn, með sínum ævintýrum og óvissu,“ segir Berta að lokum.

Hugmyndin af þessu bloggi

Ástæðan fyrir blogginu inná heimasíðunni minni er til að búa til vettvang til að grúska meira. Í október 2016 útskrifaðist ég úr masternámi í ljóða- og oratóriusöng frá Conservatorio Monteverdi í Bolzano. Í lokaritgerðinni náði ég að sameina öll mín helstu áhugamál: sönglist, sviðslist, tónlist, listasögu, barokk og ítalskt tungumál.  Yfirskrift ritgerðarinnar er: Líkaminn er myndgerfing sálarinnar.

Mig langar til að vinna nokkur blogg á íslensku út frá ritgerðinni og birta smásaman hér á síðunni – fyrir þá sem hafa áhuga 😄