Ágústkjóllinn

Ágústkjólinn er ljósblá blómadásemd. Klæddist honum fyrst á 35 ára afmælisdaginn minn (í gær, 31. ágúst).

Ég fékk kjólinn í frumsýningargjöf eftir óperuna The Raven´s Kiss frá Svani kærastanum mínum.  Hef aldrei áður fengið svona fallega frumsýningargjöf <3

Hlakka til að skapa fullt af skemmtilegum sögum í kjólnum í framtíðinni 🙂

Keyptur: 2019

Ég í afmæliskjólnum, með Svani og Gretu 🙂

 

 

 

Júlíkjóllinn

Júlíkjólinn er þægilegur söngkonukjóll. Hann er léttur með háum klaufum á pilsinu þannig að það loftar vel um hann. Þessi kjóll er nauðsynja-vara sem ég ætla að taka með mér út á fimmtudaginn – í hitabylgjuna í Evrópu! Er að fara að syngja á gala-tónleikum á útisviði í Fidenza í Parmahéraðinu á Ítalíu næstkomandi föstudag. Hlakka mikið til 🙂

Saga júlíkjólsins: 

Ég elska að ferðast með þennan kjól, hann lítur alltaf vel út – líka beint uppúr bakpokanum! Þess vegna var þetta vinsælasti áheyrnarprufukjóllinn minn, þangað til ég fór á masterklass um hvernig á að líta út í áheyrnarprufum.. þá fékk ég “big No-No” á hann. Í áheyrnarprufum á að vera eins hlutlaus og hægt er; einlitum kjól – ekkert minstur – ekki óhefðbundið snið – alls ekki skart – skór í húðlit – ekki mikla förðun – hárið slegið og hlutlaust……

Núna á ég nýjan áheyrnarprufukjól og get notað þennan fyrir tónleika 🙂

Myndin er tekin í Fríkirkjunni í Reykjavík eftir tónleika hjá okkur Sigurði Helga á vegum tónleikaraðarinnar Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni. Hef einnig komið fram í kjólnum í höll í Súður-tíról og í kirkjunni í Grindavík.

 

Keyptur: Bolzano, Ítalía – 2016

Júníkjóllinn

Júníkjóllinn er skemmtilegur söngkonukjóll með bleiku undirpilsi. Hef komið fram í honum við hin ýmsu tilefni; svo sem þegar ég var kynnir og meðal söngvara á síðustu afmælistónleikum Guðfreðs hjálparhellu úr Söngskólanum í Reykjavík og þegar ég stýrði Kvennakór Grindavíkur á sínum fyrstu vortónleikum. Svo lánaði ég kjólinn fyrir sýninguna Þinn Falstaff hjá Nemendaóperunni, þar sem Íris Sveinsdóttir bar hann af einstakri prýði.

Meðfylgjandi mynd var tekin á Sjóaranum síkáta í Grindavík.

Saga með kjólnum: 

Ég hef bara fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessum líflega kjól. Random fólk hefur beðið um að fá að taka myndir af mér í honum og því má líklega finna mig innrammaða í kjólnum á ólíklegustu heimilum – geri ráð fyrir því.

Hlakka til að búa til fleiri sögur í þessum kjól 🙂

Keyptur: Kjólar og konfekt, ca 2017

Maíkjóllinn

Maíkjóllinn er blái kjóllinn með blómunum 🙂 Fann hann í Kolaportinu á litlar 1.000 kr. og hann hefur þjónað mér vel; á sviði, í myndatökum, í brúðkaupi, á skemmtanalífinu og við önnur tækifæri.

Saga með kjólnum: 

Það var Menningarnótt og miðbærinn troðfullur af fólki. Ég var ein á ferð, í mínu fínasta pússi, að reyna að finna mér leið í gegnum mannmergðina til að hitta vinina. Ung kona, úr gagnstæðri átt, fylgdist mjög greinilega með mér nálgast. Ég reyndi að koma henni fyrir mér; kannski var þetta fjarskyld frænka, einhver sem ég hef unnið með, stundað nám með eða eitthvað álíka – en ég mundi ekkert eftir henni. Þegar við svo loksins mætumst þá var ég komin með “ég-þekki-þig-líka” brosið og ætlaði að fara að heilsa henni.. af því að hún var augljóslega að koma að tala við mig. En þá mætti mér eitthvað allt annað. Hún setti í brýrnar, stóð fast í báðar lappir og sagði reiðilega við mig: “Þú ert eins og illa skreytt jólatré!”. 

Keyptur: Kolaportið, ca. 2012

Aprílkjóllinn

Aprílkjóllinn er einn af mínum uppáhalds sparikjólum. Það er gott að syngja í honum; þótt hann sé tekin saman í mittið – þá er hann ekki of þröngur. Mér finnst gaman að vera í bleikum sokkabuxum og nota fjólubláa og/eða gula fylgihluti til að hressa hann við.

Í apríl fórum við Svanur í roadtrip til Fáskrúðsfjarðar, þar sem við vorum í faðmi fjölskyldunnar og átum á okkur gat yfir páskana. Ég var í þessum kjól í fermingarmessunni, en gleymdi að biðja um það yrði tekin af mér mynd. Þess vegna ákváðum við að nota Skógarfoss á leiðinni til baka sem bakgrunn.

Saga aprílkjólsins: 

Þessi kjóll er í miklu uppáhaldi þessa stundina, var td. í honum í Landanum í febrúar á þessu ári. Ein mín nánasta vinkona sagði; “Þú varst eins og miðaldra kennslukona í þessu viðtali” – en aðrir voru almennt sáttir við mig, held ég.

 

Marskjóllinn

Marskjólinn er gala-söngkonukjóll. Keypti þessa dásemd í New York, í tilefni af því að ég söng á gala-tónleikum í Carnegie Hall. Eftir það hef ég m.a. sungið í honum í höll í Tonadico á Ítalíu, í Grindavíkurkirkju og í Hörpu.

Saga marskjólsins: 

Í febrúar 2017 fór ég í áheyrnarprufu í New York. Yfirleitt gisti ég hjá káts-sörferum í svona ferðum en ekki í New York, mömmu vegna. Ég splæsti í hostel, gisti í neðri koju, undir Mose – gömlum manni frá Brasilíu sem tók úr sér tennurnar áður en hann klifraði upp í efri kojuna.

Ég misskildi áheyrnarprufu-leiðbeiningar; hélt að ég ætti að æfa hlutverkið sem ég var að sverma fyrir sem var Dido í Dido and Aneas eftir Purcell. En ég átti að vera með þrjár ólíkar aríur og koma með nótur af þeim fyrir meðleikarann. Þetta uppgötvaði ég áheyrnardaginn – af því að við fengum áminningar-tölvupóst! Það var panikk… Ég fékk dýrmæta hjálp frá Jónu Fanneyju sem sendi mér skannaðar nótur af aríum sem ég hef verið að syngja og bjargaði mér fyrir horn.

Eins og venjulega, varð ég stressuð fyrir áheyrnarprufunni og var næstum búin að skrópa. Sem betur fer gerði ég það ekki, þar sem ég fékk hlutverk í óperu eftir þessa prufu og tækifæri til að syngja þekkstustu aríuna úr óperunni Dido and Aneas, When I’m laid in earth, í Carnegie Hall sem var heldur betur lífsreynsla.

Sumrinu 2017 eyddi í New York, söng í óperu-uppfærslu og á nokkrum tónleikum. Bjó í lítilli íbúð með einni stelpu frá Tyrklandi og annarri frá Hong Kong.

En ég þurfti nýjan kjól fyrir tilefnið, eins og gefur að skilja!

Í New York eru ótal verslanir og margar af þeim selja galakjóla, en mjög fáar selja kjóla í minni stærð. Ef ég fann réttu stærðina, þá væru þeir “gömlukonulegir”; svartir eða dökklitaðir. Ef ég spurði afgreiðslufólkið þá fékk ég iðulega svarið; “svart grennir” – sem er svo mikil dásemdar vitleysa. Rétt mataræði og hreyfing grennir.. svart kannski blekkir..

Ég datt í lukkupottinn þegar ég fann þennann fallega, klæðilega, rauða kjól í réttri stærð! 😀

Keyptur: New York – 2017

Arianna

Vinsælustu viðfangsefni barokk listamanna voru tekin úr goðafræði eða grískum og rómverskum fornsögum. Þessar sögupersónur/viðfangsefni nutu vinsælda bæði hjá almenning og hjá yfirstéttinni. Listamenn sóttu innblástur í þessar sögur, fyrir listsköpun sína hvort sem það var á striga eða á sviði. Persónurnar eru fjölmargar en þó voru sum viðfangsefni vinsælli en önnur, svo sem Orfeus og Evridís, Kleópatra og gyðjur á borð við Venus.

Dafne er í titilhlutverkið í fyrsta óperunni. En ég mun taka fyrir prinsessuna Ariönnu og í næstu færslu mun ég skrifa um rómversku gyðjuna Júnó vegna þess að ég hef greint tjáningarmöguleika þeirra.

Arianna

Arianna var dóttir Krítarkonungs, en heimildum ber ekki alveg saman um sögu hennar. Hún varð ástfanginn af erkióvini föður síns, Teseo, prins frá Aþenu. Arianna og Teseo gerðu samkomulag, um að hún myndi hjálpa honum að flýja úr Völundarhús föður hennar með því skilyrði að hann tæki Aríönnu með sér til Aþenu sem ástkonu sína. Aríanna stóð við sitt loforð; hún lagði þráð að útgönguleiðinni, sem vísaði Teseo veginn út. En hann sveik sitt loforð og skildi hana eftir við árbakka Naxos. Hún var þar ein og yfirgefin, búin að svíkja föður sinn og átti ekki afturkvæmt. Þetta er sannarlega hörmulegt aðstæður fyrir hana og til að bæta gráu ofan á svart þá tekur Bakkus hana að sér, þau giftust og eignuðust 4 börn.

Áhrifamikla augnablikið, þegar Arianna uppgötvar að elskhugi hennar hefur yfirgefið hana, hefur haft áhrif á marga listamenn og er að finna í mörgum listaverkum, jafnvel fyrir tíma barrokksins.

Til dæmis er kominn plata í húsi Fabio Rufo í Pompeii á Ítalíu þar sem sagnfræðingar segja að sýni Bakkus og Ariönnu, á þessari örlagaríku stund.

Arianna addormentata (mynd hér að neðan) – skúlptúr í Vatíkaninu. Þarna er Aríanna ein. Vinstri höndin er undir kinn, sem táknar depurð. Hún sefur á hörðum steini sem hendurnar í nokkuð einkennilegri stöðu sem gefur til kynna það sem koma skal; þá biturlegu staðreynd sem hún mun sjá þegar hún vaknar.

Myndaniðurstaða fyrir arianna addormentata

En listaverkið sem mig langar einna helst að vitna í frá barrokktímanum er Bakkus og Arianna (mynd hér að neðan) eftir Guido Reni. Hér sést Bakkus nálgast prinsessuna á mjög karlmannlegan, öruggan hátt. En hún er í miðri örvæntingu, eftir fráhvarf Teseo. Ef við skoðum vel myndina, þá sjáum við skip Teseo sigla í burtu. Bakkus ber vínviðinn kringum höfuð sér, sem er eitt af táknum hans.

Myndaniðurstaða fyrir bacchus e arianna guido reni

Claudio Monteverdi er eitt af tónskáldum tímabilsins sem skrifuðu um yfirgefnu prinsessuna. Hann samdi L´Arianna árið 1608, sem er harmleikur við libretto eftir Ottavio Rinuccini. Óperan er glötuð og einungis arían Lamento d’Arianna hefur varðveist.

Lamento þýðir harmakvein og er þar af leiðandi sársaukaþrungið verk, þar sem sögupersónan lýsir örvæntingu sinni og þjáningu; í þessu tilfelli eftir svikulann elskhuga. Lamento d’Arianna lýsir þeim tilfinningaskala sem Arianna fer í gegnum þegar hún vaknar og uppgötvar að Teseo er farinn frá henni. Sársaukinn er svo yfirþyrmandi á kafla að hún vildi óska þess að hún hefði frekar dáið en að upplifa þessa höfnun.

Ári áður en verkið var samið var örlagaríkt fyrir tónskáldið, Monteverdi, en þá missti hann konuna sína úr alvarlegum veikindum. Sú persónulega reynsla getur verið ástæðan fyrir því hversu vel Monteverdi nær að fanga örvæntinguna, svo djúpstæða og þjáningamikla.

Túlkun aríunnar

Til að túlka aríuna Lamento d’Arianna á sviði er mikilvægt að lýta fyrst á líkamstjáningar fyrir sársauka. Sársauki getur verið: höfnun, örvænting, depurð, þjáning, þunglyndi og leiði. Til að koma þessum tilfinningum til skila skulu hreyfingar vera hægar hreyfingar og líkaminn niðurlútur.  

Sársauki: 

 • Hendi undir kinn – dæmigerð líkamstjáning fyrir sársauka
 • Úlnliðar upp – höfnun
 • Hendur fyrir andlitið
 • Einnig: Klóra, bíta eða berja/slá eða berja höfuðið við vegg

Lýtum á málverkið hér að ofan eftir Guido Reni: hægri hendin sýnir höfnun og hjálparleysi. Vinstri hendin hvílir undir kinn =  depurð.

Sársauki er svo mikill að Arianna vildi helst deyja og hún tilbiður að himnarnir sæki sig. Þar getum við litið til líkamstjáningar um bæn eða trúarákall. Þar er mikilvægasta líkamstjáningin að lýta upp – ef það er möguleiki. Við sjáum þá tjáningu í málverki Renis. Einnig er algengt að sjá hendurnar í bænarstöðu eða með hendurnar upp til himna. Hendi brjósti er trúarlegt tákn.

Bæn / Trúarákall: 

 • Horfa upp
 • Hendur upp, í bænastöðu eða á brjósti
 • Þunginn framm og/eða upp

Þar sem þetta verk er bæði langt og tilfinningaþrungið þá þurfum við að líta á aðrar stöður sem túlka; ást – öfund – reiði – tryggð.

Til að túlka ástina sem Arianna ber til Teseo, sem augljóslega er ekki gagnkvæm, er t.d. hægt að opna opna klæðin til að sýna hjartað og beina þeim hluta líkamans í átt að skipinu eða út á sjó.  

Ást: 

 • Opna klæðin á brjóstinu – sýna hjartað
 • Opna faðminn
 • Þunginn fram og léttur
 • Lausir fingur
 • Leggja hendi annars að brjósti sér
 • Spenna við líkamlega snertingu

Til að tjá öfund, eru augun mjög mikilvæg, það gæti því verið árangursríkt að líta mjög greinilega á skipin sigla í burtu. Arianna raunverulega öfundar Teseo vegna þess að hann getur snúið heim til sín, en hún á ekki afturkvæmt – hún sveik föðurland sitt. Þessi öfund kemur fram í harmakveininu; Aþena tekur á móti þér með veislu, en ég get hvergi farið.

Öfund: 

 • Halda fyrir eyrun – til að komast hjá því að heyra um velgengni
 • Augun eru mjög mikilvæg: líta á einhvern með athygli eða fyrirlitningu
 • Bakið bogið – axlir þungar
 • Varir klemmdar saman
 • Rífa í hár sitt

Næst er reiði – sem kemur greinilega fram í textanum þegar Arianna óskar þess að stormur sökkvi skipi Teseo og drepi hann. Einnig núna eru augun mikilvæg, þau verða að vera grimm og ógnandi. Höfuðið er þrýst fram, ásamt öllum þunga líkamans, hreyfingar eru óreglulegar og vöðvar spenntir.

Reiði: 

 • Rífa í hár sitt
 • Skjálfti í munni, útvíkkaðir nasir og opninn munnur
 • Krumpað enni
 • Krepptir hnefar
 • Naga varir, fingur og neglur

Þessi tilfinning varir ekki lengi, því Arianna fær nýstandi samviskubit yfir því að hafa hugsað slíkt um manninn sem hún elskar og óskar þess að hann snúi við að sækja sig.

Síðasta tilfinningin sem ég ætla að taka fyrir er tryggðin sem hún sýnir Teseo þrátt fyrir þessa miklu höfnun. Áhrifarík túlkun er að leggja hægri hendi að brjósti sér – hjartastað og þyngd líkamans er fram.

Tryggð: 

 • Hendi á hjartað
 • Leggja höndina slétta á öxl annars
 • Opna faðminn

Tilfinningarnar ást og tryggð setur þunga líkamans fram,  líkaminn er opinn og hreyfanlegur. Tilfinningin er létt en umfram allt einlæg. Staða líkamans breytist algerlega til að tjá öfund eða reiði: Líkaminn er spenntur, axlirnar jafnvel upp eða áfram og allur líkaminn er hokinn og lokaður.

Lokaorð aríunnar eru mjög áhrifarík og þeim er beint til áhorfandans. Þar opnar Aríanna sig um að svona lagað gerist fyrir þá sem elska of einlægt og treysta í blindni.

Barokk-líkaminn

Eftirfarandi pistill er hluti af fyrirlestri sem ég hélt fyrir listfræðinemendur við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er unninn uppúr mastersritgerðinni minni sem ég skrifaði við Tónlistarháskólann í Bolzano á Ítalíu. Þar sameinaði ég mín helstu áhugamál; sönglist, ítalskt tungumál, sviðslistir, listasögu og barrokk.

Barokk 1600-1750

Tímabilið á upptök sín að rekja til Rómar en dreifðist hratt um alla Evrópu. Höfuðborg páfans var einnig höfuðborg listmenningar. Margir innlendir sem og erlendir listamenn sóttu innblástur og iðkuðu list sína í Róm. Þar átti sér stað raunveruleg uppspretta listrænnar hugsunar þar sem listamenn blómstruðu. Þessi alþjóðlegi miðdepill er eitt af ástæðunum fyrir því hversu fjölbreytt listin varð og hversu hratt hún þróaðist.

Tímabilið á undan barokkinu var endurreisnar-tímabilið. Þar hófst miklivæg framþróun á sviði vísinda og lista, sem fræðimenn og listamenn barokksins byggðu á og þróuðu. Endurreisnin einkenndist af leitinni að hinu fullkomna formi, þ.á.m. formi líkamans. Listamenn barokksins nýttu sér þessa þekkingu en bættu við: tilfinningu, skynjun og sálfræðilegu gildi viðfangsefnisins inní verkin sín. Þessi nýja viðbót hafði mikil listræn áhrif og er eitt helsta einkenni barokklistar – listsköpun varð þar af leiðandi ríkari og dýpri í tilfinningalegum skilningi. Þessi síðasti punktur finnst mér persónulega eitt það athyglisverðasta í listum frá barokktímanum.

Á tímabilinu var mikil gróska í bókmenntum, heimspeki og listum, en einnig bylting í stjörnufræðum og trúarbrögðum. Listamenn, eins og aðrir, urðu fyrir áhrifum af þessum breytingum og nýttu sér aukna þróun í vísindunum og tækni. Sem dæmi um það má nefna að fiðlan þróaðist í þá mynd sem við þekkjum hana í dag.

Helstu framfarir tímabilsins í tónlistarsköpun var notkun basso continuo, il recitativo – sem þróaðist út frá Madrigölum, lo stile concerto – sem þróaðist út frá Mottettunni og óperan til.

Óperan verður til

Fyrsta óperan, eða öllu heldur fyrsta tilraun að óperu, er Dafne eftir Jacopo Peri. Líbrettóið (texti óperunnar) skrifaði Ottavio Rinuccini. Óperan var frumflutt í Flórens á Ítalíu, árið 1594. Val á viðfangsefni óperunnar hjá Peri og Rinuccini er í samræmi við þann tíðaranda sem þeir lifðu í – en ævintýri og persónur úr goðafræði og fornsögu voru einkar vinsæl. Fyrstu óperurnar voru tilraunakenndar, eins og gefur að skilja – og þær þurftu að enda vel – því þær voru fluttar á gleðistundum svo sem í brúðkaupi, við skírn, í veislum eða í tilefni af mikilvægum heimsóknum. Söngurinn var líkari tali og átti að skila orðunum vel. Þessi söngstíll er kallaður “recitar cantando” sem þróaðist yfir í það sem við þekkjum vel í dag: recitativo þar sem söngvarinn talsyngur áður en arían hefst.

Óperan, sem listform, þróaðist hratt og varð fljótt aðgengilegt fyrir almenning, en fyrsta óperuhúsið sem var rekið á miðasölu opnaði í Feneyjum árið 1637. Sjónræn áhrif, sem sagt líkamstjáning, leikur og sviðsetning, urðu jafnvel mikilvægari eftir að almenningur fór að sækja óperusýningar.

Árið 2001 gaf Francesca Gualandri út ritið “Affetti, Passioni, Vizi e Virtú: La retorica del gesto nel teatro del ‘600.” Þar tekur hún saman tillögur fræðimanna frá barrokktímanum um líkamstjáningu á sviði út frá tilfinningaástandi viðfangsefnisins. Þar kemur fram að söngur á að vera sem náttúruleg afleiðing af hugsun og upplifun einstaklingsins sem á að túlka og þar skiptir líkaminn og líkamstjáningin höfuð máli. Ég sótti mikið í þetta rit í mínum rannsóknum. Söngvarar, ólíkt öðrum tónlistarmönnum, hafa þann möguleika að tjá sögu og tilfinningu með orðum – í gegnum tungumálið. Tungumálið er þar af leiðandi mjög mikilvægt bæði fyrir þá sem hlusta og fyrir þann sem túlkar. Þar þarf að koma fram bæði hugsanir, söguþráður, tilfinning og ástríða. En við megum ekki bara hugsa um orðin, heldur þurfum við að taka líkamann með í þetta ferli.   

Líkamstjáning eru að vissu leyti eðlilegur fylgihlutir til að gera samtal og/eða sviðsetning ríkari og skilvirkari. Á tímum barrokksins – sem og í dag – var líkamstjáning talin besta leiðin til að gefa orðinu dýpri meiningu og koma ástríðu og tilfinningum betur til skila og í þeim skilningi er oft talað um hið sýnilega tungumál, sem byggir á kerfi, svipað og talað tungumál.

Fræðimenn tímabilsins leituðust eftir að búa til þetta kerfi, til að samræma sig um hvaða tilfinning kallar fram hvaða hreyfingu. Þeir lögðu þar með grunninn af því sem seinna hefur verið notast við í sviðslistafræðum, kenningar þeirra hafa nýst vel og verið þróaðar áfram. Söngvarinn þarf að hafa fallega rödd, vera lagviss, hafa tilfinningu fyrir hrynjandi og rytma. Framburður skal vera skýr, með áherslubreytingum ef við á og viðeigandi hreyfingum til að koma sögunni/boðskapnum til skila og hreyfa við áhorfendanum.

Höndin er sá hluti mannslíkamans sem er mest notaður. Táknin sem við getum gert með höndum eru aðgengileg, skilvirk og nokkuð auðskiljanleg. Hendur styðja vel við frásögn. Hún býður, kynnir, grípur, styður, stöðvar, fjarlægir, strýkur, klappar, slær, hækkar eða lækkar, fagnar eitthvað, gefur til kynna, kallar, hafnar, efast o.fl. 

Annar mjög mikilvægur líkamspartur eru fæturnar, en með þeim sýnum við hvar þungi líkamans liggur. Ef þyngdin er fram, þá sýnum við styrk, hreyfingu, gleði eða reiði, virkni, athygli. Ef að þunginn liggur aftar í fótunum þá tjáir það þreytu, depurð, sársauka, ótta eða aðgerðaleysi.

Þriðja grundvallaratriði tjáningar er andlitið: enni, augabrúnir, augu, nef og munnur. Ennið og augabrúnir vinna saman; sýna skömm, sekt, reiði, gleði… Oft hefur verið talað um augun sem spegil sálarinnar. Hvert einasta hugarástand, stór eða smá, sjást í þeim. Þar af leiðandi eru þau mjög mikilvæg, sérstaklega fyrir tilfinningaástand á borð við öfund, reiði, gleði, brjálæði, ótta, óróa, undrun… Með nefinu getum við tjáð gremju, fyrirlitningu eða leiðindi. Munnurinn getur vísað upp til hliðanna sem táknar gleði eða niður sem táknar sorg.

Aðrir mikilvægir líkamspartar eru: höfuðið, axlir, brjóst og mittið.

Eins og fram hefur komið þá er list frá barrokk tímanum tilfinningaþrungin og rík af tjáningu. Fræðimenn og listamenn leituðust við að samræma sig í því að koma tilfinningum til skila til áhorfandans, með einhvers konar kerfi. Það eru til nokkur rit eftir fræðimenn sem skýra hvernig best er að túlka tilfinningar með líkamstjáningu svo fólk skilji og finni til samkenndar. Frægasta ritið er Il Corago sem er eftir óþekktan höfund, en einnig eru rit eftir Cesare Ripa, Pierfrancesco Rinuccini, Jesuit Franciskus Lang og Giambattista Della Porta. Þessar handbækur voru notaðir af listamönnum til að ná fram réttu/mikilvægustu táknunum líkamstjáningu viðfangsefna sinna.

Í ofangreindum bókum eru farið yfir líkamstjáninguna sem hafa sömu gildi fyrir allar listgreinar: málverk, skúlptúr og leikhús.

En meira um þetta málefni á næstu dögum!

Febrúarkjóllinn

Febrúarkjólinn er klárlega einn mest notaði kjóllinn minn!

Fyrst var ég smá feimin við að nota hann af því að mér fannst pilsið svo prinsessulegt – en það venst voða vel 😉 Ég hef notað hann við ýmis tilefni, fór m.a. í myndatöku í honum í Bolzano á Ítalíu í tenglsum við söngprófið mitt og hef notað þær myndir nokkuð mikið, bæði hér á síðunni og til að auglýsa tónleika. Hef samt aldrei sungið í honum opinberlega.

Í dag er hann einn af mínum skvísu-hversdagskjólum.

 

Lítil saga tengd febrúarkjólnum: 

Ég var í kjólnum að bíða eftir strætó niðrí bæ. Miðaldra maður er að bíða líka. Hann segir við mig: “Þú fórst bara svona út eins og það væri í lagi?” Ég gat ekki annað en glottað og sagði bara einfalt ““. Við áttum svo fleirri orðaskipti á meðan við biðum eftir strætóunum okkar. Hann kvaddi mig að lokum með þessum orðum: “Ég vildi að það væru fleirri konur sem myndu klæða sig eins og þú – þetta er svo hressandi

 

Keyptur: Rokk og rósir (ef ég man rétt) – Reykjavík – ca 2005

 

 

Janúarkjóllinn

Fyrsti kjólinn í þessari áskorun er einn af mínum uppáhalds: bleiki kjóllinn!

Hann byrjaði sem “söngkonukjóll” og ég kom m.a. fram í honum á tónleikum á Skriðuklaustri. Svo tók ég nokkur djömm í honum, en í dag er hann orðinn hversdagskjóll.. með einu sígarettugati sem enginn sér.

 

Lítil saga tengd janúarkjólnum: 

Ég var klædd kjólnum á balli í Salthúsinu í Grindavík. Ung stúlka, sem ég þekkti ekki, var mjög starsýnt á mig á dansgólfinu. Eftir nokkra stund gerði hún sér far til mín og sagði – hátt og skýrt beint í eyrað á mér: “Hvar fékkstu þennan kjól?” Ég strauk kjólnum og svaraði henni: “Ég fékk hann í Rokk og rósum fyrir örugglega fjórum árum síðan” – bætti við þessum “fjórum árum” af því að ég hélt að henni langaði í svona kjól. En svo var víst ekki.. því hún sagði mjög skýrt og greinilega: “Skilaðu honum!

 

Keyptur: Rokk og rósir – Reykjavík – ca 2006