Barokk-líkaminn

Eftirfarandi pistill er hluti af fyrirlestri sem ég hélt fyrir listfræðinemendur við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er unninn uppúr mastersritgerðinni minni sem ég skrifaði við Tónlistarháskólann í Bolzano á Ítalíu. Þar sameinaði ég mín helstu áhugamál; sönglist, ítalskt tungumál, sviðslistir, listasögu og barrokk.

Barokk 1600-1750

Tímabilið á upptök sín að rekja til Rómar en dreifðist hratt um alla Evrópu. Höfuðborg páfans var einnig höfuðborg listmenningar. Margir innlendir sem og erlendir listamenn sóttu innblástur og iðkuðu list sína í Róm. Þar átti sér stað raunveruleg uppspretta listrænnar hugsunar þar sem listamenn blómstruðu. Þessi alþjóðlegi miðdepill er eitt af ástæðunum fyrir því hversu fjölbreytt listin varð og hversu hratt hún þróaðist.

Tímabilið á undan barokkinu var endurreisnar-tímabilið. Þar hófst miklivæg framþróun á sviði vísinda og lista, sem fræðimenn og listamenn barokksins byggðu á og þróuðu. Endurreisnin einkenndist af leitinni að hinu fullkomna formi, þ.á.m. formi líkamans. Listamenn barokksins nýttu sér þessa þekkingu en bættu við: tilfinningu, skynjun og sálfræðilegu gildi viðfangsefnisins inní verkin sín. Þessi nýja viðbót hafði mikil listræn áhrif og er eitt helsta einkenni barokklistar – listsköpun varð þar af leiðandi ríkari og dýpri í tilfinningalegum skilningi. Þessi síðasti punktur finnst mér persónulega eitt það athyglisverðasta í listum frá barokktímanum.

Á tímabilinu var mikil gróska í bókmenntum, heimspeki og listum, en einnig bylting í stjörnufræðum og trúarbrögðum. Listamenn, eins og aðrir, urðu fyrir áhrifum af þessum breytingum og nýttu sér aukna þróun í vísindunum og tækni. Sem dæmi um það má nefna að fiðlan þróaðist í þá mynd sem við þekkjum hana í dag.

Helstu framfarir tímabilsins í tónlistarsköpun var notkun basso continuo, il recitativo – sem þróaðist út frá Madrigölum, lo stile concerto – sem þróaðist út frá Mottettunni og óperan til.

Óperan verður til

Fyrsta óperan, eða öllu heldur fyrsta tilraun að óperu, er Dafne eftir Jacopo Peri. Líbrettóið (texti óperunnar) skrifaði Ottavio Rinuccini. Óperan var frumflutt í Flórens á Ítalíu, árið 1594. Val á viðfangsefni óperunnar hjá Peri og Rinuccini er í samræmi við þann tíðaranda sem þeir lifðu í – en ævintýri og persónur úr goðafræði og fornsögu voru einkar vinsæl. Fyrstu óperurnar voru tilraunakenndar, eins og gefur að skilja – og þær þurftu að enda vel – því þær voru fluttar á gleðistundum svo sem í brúðkaupi, við skírn, í veislum eða í tilefni af mikilvægum heimsóknum. Söngurinn var líkari tali og átti að skila orðunum vel. Þessi söngstíll er kallaður “recitar cantando” sem þróaðist yfir í það sem við þekkjum vel í dag: recitativo þar sem söngvarinn talsyngur áður en arían hefst.

Óperan, sem listform, þróaðist hratt og varð fljótt aðgengilegt fyrir almenning, en fyrsta óperuhúsið sem var rekið á miðasölu opnaði í Feneyjum árið 1637. Sjónræn áhrif, sem sagt líkamstjáning, leikur og sviðsetning, urðu jafnvel mikilvægari eftir að almenningur fór að sækja óperusýningar.

Árið 2001 gaf Francesca Gualandri út ritið “Affetti, Passioni, Vizi e Virtú: La retorica del gesto nel teatro del ‘600.” Þar tekur hún saman tillögur fræðimanna frá barrokktímanum um líkamstjáningu á sviði út frá tilfinningaástandi viðfangsefnisins. Þar kemur fram að söngur á að vera sem náttúruleg afleiðing af hugsun og upplifun einstaklingsins sem á að túlka og þar skiptir líkaminn og líkamstjáningin höfuð máli. Ég sótti mikið í þetta rit í mínum rannsóknum. Söngvarar, ólíkt öðrum tónlistarmönnum, hafa þann möguleika að tjá sögu og tilfinningu með orðum – í gegnum tungumálið. Tungumálið er þar af leiðandi mjög mikilvægt bæði fyrir þá sem hlusta og fyrir þann sem túlkar. Þar þarf að koma fram bæði hugsanir, söguþráður, tilfinning og ástríða. En við megum ekki bara hugsa um orðin, heldur þurfum við að taka líkamann með í þetta ferli.   

Líkamstjáning eru að vissu leyti eðlilegur fylgihlutir til að gera samtal og/eða sviðsetning ríkari og skilvirkari. Á tímum barrokksins – sem og í dag – var líkamstjáning talin besta leiðin til að gefa orðinu dýpri meiningu og koma ástríðu og tilfinningum betur til skila og í þeim skilningi er oft talað um hið sýnilega tungumál, sem byggir á kerfi, svipað og talað tungumál.

Fræðimenn tímabilsins leituðust eftir að búa til þetta kerfi, til að samræma sig um hvaða tilfinning kallar fram hvaða hreyfingu. Þeir lögðu þar með grunninn af því sem seinna hefur verið notast við í sviðslistafræðum, kenningar þeirra hafa nýst vel og verið þróaðar áfram. Söngvarinn þarf að hafa fallega rödd, vera lagviss, hafa tilfinningu fyrir hrynjandi og rytma. Framburður skal vera skýr, með áherslubreytingum ef við á og viðeigandi hreyfingum til að koma sögunni/boðskapnum til skila og hreyfa við áhorfendanum.

Höndin er sá hluti mannslíkamans sem er mest notaður. Táknin sem við getum gert með höndum eru aðgengileg, skilvirk og nokkuð auðskiljanleg. Hendur styðja vel við frásögn. Hún býður, kynnir, grípur, styður, stöðvar, fjarlægir, strýkur, klappar, slær, hækkar eða lækkar, fagnar eitthvað, gefur til kynna, kallar, hafnar, efast o.fl. 

Annar mjög mikilvægur líkamspartur eru fæturnar, en með þeim sýnum við hvar þungi líkamans liggur. Ef þyngdin er fram, þá sýnum við styrk, hreyfingu, gleði eða reiði, virkni, athygli. Ef að þunginn liggur aftar í fótunum þá tjáir það þreytu, depurð, sársauka, ótta eða aðgerðaleysi.

Þriðja grundvallaratriði tjáningar er andlitið: enni, augabrúnir, augu, nef og munnur. Ennið og augabrúnir vinna saman; sýna skömm, sekt, reiði, gleði… Oft hefur verið talað um augun sem spegil sálarinnar. Hvert einasta hugarástand, stór eða smá, sjást í þeim. Þar af leiðandi eru þau mjög mikilvæg, sérstaklega fyrir tilfinningaástand á borð við öfund, reiði, gleði, brjálæði, ótta, óróa, undrun… Með nefinu getum við tjáð gremju, fyrirlitningu eða leiðindi. Munnurinn getur vísað upp til hliðanna sem táknar gleði eða niður sem táknar sorg.

Aðrir mikilvægir líkamspartar eru: höfuðið, axlir, brjóst og mittið.

Eins og fram hefur komið þá er list frá barrokk tímanum tilfinningaþrungin og rík af tjáningu. Fræðimenn og listamenn leituðust við að samræma sig í því að koma tilfinningum til skila til áhorfandans, með einhvers konar kerfi. Það eru til nokkur rit eftir fræðimenn sem skýra hvernig best er að túlka tilfinningar með líkamstjáningu svo fólk skilji og finni til samkenndar. Frægasta ritið er Il Corago sem er eftir óþekktan höfund, en einnig eru rit eftir Cesare Ripa, Pierfrancesco Rinuccini, Jesuit Franciskus Lang og Giambattista Della Porta. Þessar handbækur voru notaðir af listamönnum til að ná fram réttu/mikilvægustu táknunum líkamstjáningu viðfangsefna sinna.

Í ofangreindum bókum eru farið yfir líkamstjáninguna sem hafa sömu gildi fyrir allar listgreinar: málverk, skúlptúr og leikhús.

En meira um þetta málefni á næstu dögum!

0 thoughts on “Barokk-líkaminn”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *