Stutt í næstu brottför

Í dag eru nákvæmlega 2 mánuðir í að ég standi á sviðinu í Carnegie Hall á Gala tónleikum! Þar mun ég syngja aríuna When I am laid in Earth úr Dido and Aneas eftir Purcell og “Aðra dömu” í Nur Stille Stille úr Töfraflautunni eftir Mozart.

Það er örlítill spennuhnútur búinn að hreiðra um sig í mallanum á mér – sem veldur því að aðra stundina ljóma ég sem sólin en hina hvæsi ég sem norn. Það er því mjög spennandi að vera í kringum um mig þessa dagana, kem sjálfri mér á óvart.

Þegar ég fór til New York í áheyrnarprufuna upplifði ég svipaðan spennuhnút; ég var við það að hætta við í hverju skrefi. Sigga syss getur staðfest það. Hún skutlaði mér á flugvöllinn, henti mér hálfkjökrandi út úr bílnum en beið svo dágóða stund fyrir utan flugvöllinn til að taka á móti mér ef ég skyldi hlaupa út aftur. En sem betur fer gerði ég það ekki.

Þessar nætur sem ég var í New York, út af áheyrnarprufunni, gisti ég í koju á hosteli. Í efri kojunni var Moses; ósköp indæll, gamall maður frá Brasilíu, sem tók út úr sér tennurnar áður en hann klifraði upp stigann í kojuna sína. Hann hraut hátt og ég kúrði með veskið mitt vafið um hendina. Að kveldi hvers dags sýndi Moses mér myndir frá söfnum borgarinnar sem hann tók á símann sinn – það var bara notarlegt. Góður karl. Ég mun samt ekki sofa aftur í koju þegar ég fer út núna í júní.

Áheyrnarprufu-daginn fékk ég tölvupóst, til áminningar um að koma með aukanótur af öllum þremur aríunum sem ég ætlaði að syngja. Ég var bara með eina aríu! Það fór því allt í panik og enn einu sinni hugsaði ég um að hætta við. En með dýrmætri hjálp frá Jónu Fanney náði ég að redda nótum af tveimur aríum í viðbót, sem ég kunni utanbókar og voru í réttri tóntegund. Hún átti nóturnar í tölvunni, sendi það á hostelið og móttökudaman prentaði aríurnar út fyrir mig – samdægurs! Úbbosí! Ég mætti svo í áheyrnarprufuna og hét því að segja engum frá þessu klúðri..

Stuttu eftir að ég kom heim fékk ég tölvupóst um það að ég hafi verið valin úr hópi umsækjenda, til að syngja á sumar-festivali á vegum Manhattan Opera Studio í New York. Festivalið hefst 12. júní og líkur með tónleikunum sem ég talaði um hér að ofan, 11. júlí. Ásamt því að syngja á þeim tónleikum fer ég með hlutverk “Fyrsta drengs” í Töfraflautunni eftir Mozart sem sett verður upp á þýsku. Einnig syng ég aríuna L’ho perduta úr Brúðkaupi Fígaós eftir Mozart og Papageno and Papagena’s duet úr Töfraflautunni eftir Mozart á tónleikum í The National Opera Center.

Ég læt fylgja með upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast miða: 

3. júlí, kl. 16:00 Tónleikar í The National Opera Center

Syng aríuna L’ho perduta úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart og Papageno and Papagena’s duet úr Töfraflautunni eftir Mozart

Hægt að nálgast miða inná: http://www.manhattanoperastudio.org/shop/national-opera-center-opera-concert-4pm-session1

9. júlí, kl. 14:30 Töfraflautan eftir Mozart í MOS Opera Theater at St Jean Baptist

Fer með hlutverk Fyrsta drengs. Óperan verður sett upp í fullri lengd með hljómsveit.

Hægt er að nálgast miða inná: http://www.manhattanoperastudio.org/ticketsf

11. júlí, kl. 19:30 Galatónleikar í Carnegie Hall

Syng aríuna When I am laid in Earth úr Dido and Aneas eftir Purcell og Nur Stille Stille (önnur dama) úr Töfraflautunni eftir Mozart

Hægt er að nálgast miða inná: https://www.carnegiehall.org/Calendar/2017/7/11/0730/PM/Manhattan-Opera-Studio-Gala/

Mikið væri nú gaman að sjá kunnugleg andlit í New York í sumar!

 

Shares 140

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *