Takk

Þegar ég var hávært stelpuskott í Grunnskóla Grindavíkur þurfti ég að sækja alla þá námsaðstoð sem í boði var. Frá upphafi fékk ég aukatíma í lestri og eftir venjulegan skóladag fékk ég aðstoð við heimanámið bæði í sérkennslu á vegum skólans og líka heima. Mamma, Sigga syss og kennararnir mínir hjálpuðu mér og studdu mig af þvílíkri þolinmæði, en ég sá ekki alltaf tilgang í því að læra að lesa: æðsti draumurinn var að eiga sjoppu svo ég þyrfti aldrei aftur að borga fyrir nammi.
Í lok grunnskólagöngunnar var ég komin með hjálpartæki við lesturinn: lesgleraugu með dökk-fjólubláu gleri og litaðar glærur. Helstu námsefnin fékk ég send frá Blindrabókasafninu og prófin voru annað hvort lesin upp fyrir mig eða á snælduformi. Á menntaskólaárunum var ég orðin nokkuð sjálfbjarga við lesturinn og búin að þróa með mér lærdómsaðferðir sem virka fyrir mig. Í dag hrjáir lesblindan mig ekki neitt, er meira að segja farin að lesa mér til gamans.
Ég veit ekki hvort nokkurn hefði grunað að einn góðan veðurdag myndi þetta háværa stelpuskott skrifa og skila inn tæplega 90 bls fræðiritgerð á ítölsku, við ítalskan tónlistarháskóla. Í ritgerðinni sameina ég öll mín helstu áhugamál: sönglist, sviðslist, tónlist, listasögu, barokk og ítalskt tungumál. “Líkaminn er myndgerfing sálarinnar” er hugmyndin á bak við ritsmíðina, þar sem tjáning og líkamsbeiting á sviði er skoðuð út frá líkamsstöðu í listaverkum. Sonja Haraldsdóttir teiknaði fyrir mig dásamlegar “fígúrur” til að útskýra þær líkamsstöður sem ég tek fyrir í ritgerðinni. Fígúrurnar setja svo sannarlega svip sinn á ritgerðina.
Ég er hrikalega stollt, en ennfremur þakklát. Ég fékk þá hjálp og það aðhald sem ég þurfti til að byggja mína eigin framtíð, þar sem erfiðleikar á borð við lesblindu eru ekki hindranir heldur áskorun. Fyrir mér er masters-ritgerðin mín staðfesting á því að grunnurinn var vel byggður. Ég veit að ég var ekki alltaf auðveld né samvinnuþýð, en Grunnskólinn í Grindavík og fjölskyldan mín unnu gott starf sem mér finnst hafa skilað sér.
Takk.
Shares 0

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *